Fjögur Íslandsmet slegin á einum mánuði.

Í desember síðastliðnum tók Sindri Freyr Seim Sigurðsson Ungmennafélaginu Heklu, þátt í fjórum frjálsíþróttamótum og gekk honum heldur betur vel í hlaupagreinunum. Þann 5. desember tók hann þátt í Ármannsmótinu og keppti þar í 4×200 metra boðhlaupi með A-sveit HSK/Selfoss 2002 í flokki 15 ára, þar sló sveitin Íslandsmet á tímanum 1:39,47 en gamla metið var 1:41,14 og var það búið að standa í 4 ár 11 mánuði og 6 daga. Sveitina skipuðu auk Sindra, Hákon Birkir Grétarsson, Jónas Grétarsson og Dagur Fannar Einarsson sem koma frá Selfossi en taka verður fram að Sindri er enn 14 ára.

A-sveit HSK/Selfoss 2002 í flokki 15 ára

Þann 16. desember var Aðventumót Ármanns 2017. Á því móti náði Sindri nýju Íslandsmeti í 200 metra hlaupi á tímanum 24,50 sekúndur, en gamla metið var rúmlega þriggja ára gamalt á tímanum 24,58 sekúndur.

Sindri Freyr á verðlaunapalli

Á Coca Cola-móti FH þann 21. desember sló Sindri Íslandsmet frá 15. desember 2014 í eigu Hinriks Snæs Steinssonar FH sem var 39,02 sekúndur, en Sindri hljóp 300 metrana á tímanum 38,45 sekúndur. Í einu og sama hlaupinu voru slegin þrjú aldursflokkamet. Hinrik Snær Steinsson FH setti nýtt aldursflokkamet í flokki 16-17 ára pilta er hann hljóp á tímanum 35,88 sekúndum. Dagur Fannar Einarsson Selfoss setti nýtt aldursflokkamet í flokki 15 ára pilta er hann hljóp á tímanum 37,95 sekúndum.

Þrjú aldursflokkamet slegin

Áramót Fjölnis var svo haldið 28. desember og keppti Sindri þar í 200 metra hlaupi og gerði hann sér lítið fyrir og sló 12 daga gamalt met sem hann átti sjálfur, þegar sem hann hljóp á tímanum 24,38 sekúndur. Þetta gera eins og áður sagði fjögur Íslandsmet á einum mánuði og er ánægjulegt að segja frá því að hann lokaði keppnisárinu með því að vera valinn í úrvalshóp Frjálsíþróttasamband Íslands veturinn 2017 til 2018 fyrir 200 metra hlaup. Það verður reglulega gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Sindri Freyr

 

UMF. Hekla.

 

 

   Fimleikar

Í dag tók Umf Hekla þátt í sínu fyrsta fimleikamóti eftir því sem best er vitað. Mótið fór fram í loftbelgnum í Hveragerði. Stóðu þau sig með miklum ágætum, engin spurning með það. Á myndinni sjáum við keppendurna ásamt þjálfurunum sínum.

 

Skákæfingar á Hellu

Loksins er það að hafast að koma á skákæfingum í vetur hjá okkur. Ætlar Umf Hekla að standa fyrir skákæfingum í Grunnskólanum á Hellu á þriðjudögum milli kl:14.00-15.00. Leiðbeinendur verða Björn Sigurðsson (Bjössi bank) og Ómar Helgason (Ómar í Lambhaga). Fyrsta æfing verður þriðjudaginn 3.11 (næsta þriðjudag) og viljum við benda foreldrum á að hvetja börn sín til þátttöku þar sem skák er afskaplega holl og góð íþrótt fyrir heilasellurnar. Stefnt verður á mótahald í vetur, innan sem utan skóla og verður látið vita að þeim viðburðum jafn óðum og þeir koma upp.

Frekari upplýsingar gefur

Guðmundur í síma:868-1188

 

 

 

Grunnskólamót Rangárvallasýslu í borðtennis

 Grunnskólamót Rangárvallasýslu í borðtennis verður haldið í íþróttahúsinu á Hellu föstudaginn 16. okt kl:17.00-19.00.                                    Keppt verður í eftirfarandi flokkum, sér í strákaflokki og sér í stelpuflokki:

3-5 bekkur

6-7 bekkur

8-10 bekkur

Hvetjum við sem flesta til að mæta og taka þátt í skemmtilegu móti. Þátttökuverðlaun verða veitt í yngsta flokknum                                            en verðlaunaskjöl fyrir 3 fyrstu sæti hinna flokkanna. Hægt verður að fá lánaða spað á staðnum.

 

Nánari upplýsingar veita

Guðmundur S:8681188

Ólafur Elí S:8486196

 

 

Dagskráin haustið 2015

Hér er nýjasta útgáfan af dagskrá vetrarins,hér inni er dagskráin hjá Umf Heklu, KFR og Féló. Ekki er reiknað með miklum breytingum en gæti þó orðið.

 

 

  
  Íþrótta- og tómstundanámskeið

 

Íþrótta og tómstundanámskeið verður á vegum Umf Heklu  á Hellu frá 10.– 21. ágúst á virkum dögum kl. 8:00-12:00

fyrir börn fædd á árunum 2002-2009. Verðandi  1. bekkingar eru boðnir velkomnir á námskeiðið.  Fjölbreytt dagskrá verður í boði, sem sniðin verður  að aldri barnanna. Verð kr. 6.000 fyrir viku og kr. 10.000 fyrir 2 vikur ef greitt er við skráningu.  50% systkinaafsláttur.  Umsjónarmenn námskeiðsins eru Þórunn Inga Guðnadóttir og Erla Sigurðardóttir.  Skráning og greiðsla (enginn posi) fer fram í matsalnum í Íþróttamiðstöðinni á Hellu fimmtudaginn 6.8. kl. 17.00-19.00.  Nánari upplýsingar hjá Þórunn í síma 866-0005

Ath. að það er nauðsynlegt að skrá börnin, þeim er ekki leyfilegt að mæta án skráningar forráðamanna.  Vakin er athygli á að mæting á námskeiðið á morgnana er frá kl. 8-9, ekki er leyfilegt, nema sérstakar aðstæður koma upp, að mæta eftir kl. 9 og skal þá vera í samráði við umsjónarmenn.