Saga félagsins


Í tilefni af 100 ára afmæli Ungmennafélagsins Heklu árið 2008 ritaði Páll G. Björnsson sögu félagsins.  Bókin er að langstærstum hluta byggð á fundargerðum félagsins sem eru til frá upphafi og eru í þeim fólgin mikil menningarverðmæti.  Þar er að finna umfjöllun um hin ólíkustu málefni, allt frá baráttu við sanfok, sundlaugarbyggingu, bindindismál eða umræðu um taktfast göngulag.  Bókin segir frá átökum milli manna og frá þeim menningarlegu áhrifum sem félagið hefur.  Hvernig áherslur í félagi breytast úr því að vera vettvangur málefnalegrar umræðu um þjóðernis- og önnur framfaramál yfir í uppeldis- og íþróttastarf yngstu kynslóðarinnar.  Í bókinni má finna raunsanna lýsingu á því hver áhrif velstarfandi ungmennafélag getur haft á samfélagið.  Samanburður á fortíð og nútíð er athyglisverður, hann leiðir í ljós að mál sem voru í brennidepli fyrir eitt hundrað árum eru það jafnvel enn í dag.  Þá er fróðlegt að sjá hvað félagar úr UMF Heklu hafa á ýmsum tímum náð langt á íþróttasviðinu.  Í bókinni eru um 80 myndir gamlar og nýjar.

Bókin er fáanleg hjá stórn UMF Heklu.

Í tilefni af 100 ára afmælinu var haldin vegleg veisla í íþróttahúsinu á Hellu og sett upp sýning af sögu félagsins.