Skýrsla stjórnar UMF Heklu um starfið árið 2014 


 

Aðalfundur UMF Heklu var haldinn 2. apríl 2014 í Grunnskólanum á Hellu, fundarstjóri var Guðmundur Jónasson.  Á fundinn var þokkaleg mæting og sköpuðust miklar umræður á fundinum um starfið innan félagsins. Fjárhagsleg staða félagsins er góð. Stjórn UMF Heklu er óbreytt og er hún skipuð eftirfarandi aðilum:

 

Formaður: Guðmundur Jónasson                          

Varaformaður: Guðríður Tómasdóttir      

Gjaldkeri: Hulda Karlsdóttir                                    

Ritari: Guðbjörg Arnardóttir

Meðstjórnandi: Ásgeir Jónsson                             

Varamaður:   Erna Sigurðardóttir                           

 Varamaður: Kristinn Scheving

 

Helstu atriði úr starfsemi félagsins 2014

Rúmlega 20 krakkar á grunnskólaaldri iðka körfubolta yfir veturinn tvisvar sinnum í viku í íþróttamiðstöðinni á Hellu, og er þjálfari liðsins Þorsteinn Darri Sigurgeirsson. Tekið var þátt í héraðsmóti HSK í flestum flokkum.  Farið var með stráka og stelpu lið á Nettómót í körfubolta í Reykjanesbæ. Meistaraflokkur karla þátt í annarri deild KKÍ og var gengi þeirra misjafnt.

 

Leikjanámskeið var haldið í júní í samvinnu við sveitarfélagið. Að venju stóð það yfir í 3 vikur í júní og síðan var bætt við 2 vikum í ágúst. Þátttakendur voru rúmlega  50 talsins þegar mest var í júní  í ágúst var þátttakan 15-20 krakkar.  Almenn ánægja var með námskeiðið meðal barna og foreldra. Námskeiðið var styrkt af sveitarfélaginu sem gerði það að verkum að hægt var lækka þátttökugjöldin verulega. Umsjónarmenn voru Þórunn Inga Guðnadóttir, Rúnar Hjálmarsson og Erla Sigríður Sigurðardóttir.

 

Frjálsíþróttamót var haldið í janúar fyrir krakka 11-14 ára í íþróttahúsinu á Hellu þar sem krökkum í sýslunni var boðin þátttaka og heppnaðist það vel. Héraðsleikar HSK innanhúss 10 ára og yngri á var haldið á Hellu í byrjun mars og var þátttaka fín og tókst mótið vel. Þokkaleg þátttaka var í öðrum frjálsíþróttamótum á vegum HSK og  unnust  þar  nokkur verðlaun. Félagið stóð fyrir frjálsíþróttaæfingum á íþróttavellinum fyrripart sumars þar sem mæting var oftast þokkaleg og á köflum góð. Þjálfari er Rúnar Hjálmarsson.

 

  Meistaraflokkslið kvenna í blaki undir merkjum Heklu og Dímon var starfandi á árinu eins og undanfarin ár og tóku þær þátt í fjölda móta og gekk bærilega. Urðu þær héraðsmeistarar í sínum flokkum (A og B lið) og A-liðið vann sína deild á Öldungameistaramóti Íslands.   Einnig voru skipulagðar blakæfingar á fimmtudögum fyrir krakka 11-16 ára, þjálfari (beggja liða) er Ingibjörg Heiðardóttir.

 

 Hekla stóð fyrir Héraðsmóti HSK í skák 16 ára og yngri í apríl þar sem vannst fjöldi verðlauna og vann félagið stigabikarinn og varð héraðsmeistari, Almar Máni Þorsteinsson vann flokk 11-13 ára og Gunnar Guðmundsson vann flokk 10 ára og yngri. Þá hélt félagið Rangæingamót í skák 16 ára og yngri  á Hellu um miðjan nóvember þar sem mættu rúmlega 20 þátttakendur frá Heklu, Dímoni og Þjótanda, þar varð Hekla sigursælust. Vetrarmót var haldið í skólanum á Hellu. Farið var með sveit á íslandsmeistaramót í sveitaskák 14 ára og yngri þar sem sveitin varð í 14. sæti af 21. sveit. Hekla var með A og B sveit  á Héraðsmóti HSK skák fullorðinna um miðja desember,  A- sveitin varð í 2. sæti og B-sveitin í 6. sæti. Hekla átti sveit sem tók þátt í Héraðsmóti HSK í bridge í byrjun janúar og varð sveitin í neðsta sæti.

 

 Borðtennisiðkun  er mikil í skólanum á Hellu í góðu samstarfi  við Dímon, þar sem krakkar frá okkur sækja æfingar á Hvolsvöll en þar hefur verið byggð upp mjög góð aðstaða til borðtennisiðkunar. Í upphafi árs sóttu iðkendur frá okkur æfingabúðir á Hvolsvelli á vegum Borðtennissambands Íslands. Fjöldi krakka mættu á Héraðsmót HSK sem haldið var á Hvolsvelli í nóvember þar sem við eignuðumst tvo Héraðsmeistara Þá Heiðar Óla Guðmundsson og Þorgils Gunnarsson,  urðum í öðru sæti stigakeppninnar.  3. keppendur tóku þátt í Íslandsmóti í apríl þar sem Þorgils Gunnarsson varð íslandsmeistari í flokki 11 ára og yngri, Aron Birkir Guðmundsson varð í 3-4 sæti í sama flokki.  Kepptu  krakkar frá okkur  á hinum ýmsu borðtennismótum á árinu og náðist fínn árangur. Krakkar mættu á aldursflokkamót HSK í júní og vann Heiðar Óli Guðmundsson gull í flokki 12-13 ára.

 

Sund. Skipulagðar æfingar voru tvisvar í viku fyrrihluta ársins sem voru  þokkalega sóttar, þjálfari er Lára Hrund Bjargardóttir.

 

 Handboltaæfingar voru tvisvar í viku fram á  vor og var þokkaleg mæting á þær æfingar, þjálfari er Þórunn Ósk Þórarinsdóttir

 

Taekwondoo  æfingar í samvinnu við Taekwondoo deild Umf Selfoss voru í gangi á árinu. Æft var tvisvar í viku og er hópnum skipt í tvennt; 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Um 35 krakkar og fullorðnir hafa verið að mæta að jafnaði og hefur þetta gengið mjög vel. Fullt af krökkum fóru í beltapróf á árinu. Farið var á nokkur mót innan héraðs sem utan.

 

Fimleikaæfingar voru einu sinni í viku fyrir tvo aldurshópa og voru rúmlega 40 krakkar sem tóku þátt í þessum æfingum, þjálfarar eru Steinunn Lúðvígsdóttir og Margrét Lúðvígsdóttir.

 

Umf Hekla sá um skipulagningu á samfellu skólastarfs og íþrótta fyrir  nemendur í  5-10 bekk, á mánudögum og miðvikudögum milli kl. 15 -17. Í samfellunni var félagið með körfubolta, frjálsar íþróttir, sund, skák, zumba og hreysti. Þátttakendur eru rúmlega 60 talsins.

 

Félagið sá um framkvæmd á Kvennahlaupi ÍSÍ á Hellu og var þátttaka góð, tæplega 100 konur.

 

Félagið tók þátt í kostnaði við komu fyrirlesarans Sigurður Ragnar Eyjólfsson fyrrum landsliðsþjálfara og atvinnumanns í fótbolta í samstarfi við Foreldrafélög grunnskólanna og íþróttafélög í Rangárþingi. Þar var fjallað um  heilbrigt líferni og mikilvægi þess að setja sér markmiðssetningar til að ná árangri í lífinu, alls mættu rúmlega 50 manns á fyrirlesturinn í Safnaðarheimilinu á Hellu.

 

Helstu fjáraflanir félagsins eru lottótekjur, félagsgjöld, dósasafnanir og sala á áburði. Einnig eru leigð út bingóspjöld. Árinu fengust styrkir vegna starfs félagsins úr verkefnasjóði HSK og úr Fræðslu- og verkefnasjóði Umfí.  Á árinu styrkti félagið meistaraflokk félagsins í körfubolta karla um 50.000 kr. Einnig styrkti félagið  Rakel Nathalie Kristinsdóttur til þátttöku í Evrópumótinu í hópfimleikum sem haldið var í Reykjavík. Haldið var áfram að kaupa keppnisbúninga á árinu. Keyptar voru dýnur til fimleikaiðkunar frá Umf Selfoss.  

 

Félagið tók á árinu í notkun heimasíðu, slóðin er www.umfhekla.is

 

Félagsmenn í Umf Heklu eru um 530 talsins. Félagsgjald er 1500 kr. fyrir 18 ára og eldri.

 

Félagið sendi  3 aðila á ársþing HSK að Borg í Grímsnesi um miðjan mars. Guðmundur Jónasson, Kristinn Scheving og Jón Guðmundsson. Þar var Umf Heklu afhentur Unglingabikar HSK, Guðmundur Jónasson formaður Umf Heklu var afhent  starfsmerki UMFÍ, Björgvin Guðmundsson útnefndur skákmaður ársins og Viðar Steinarsson útnefndur starfsíþróttamaður ársins.

 

Unglingalandsmót UMFÍ fór fram á Sauðárkróki í sumar þar sem Umf Hekla átti 3 keppendur og unnu þeir til nokkurra verðlauna.

 

 

 

Skýrsla stjórnar UMF Heklu um starf félagsins árið 2013 


 

Aðalfundur UMF Heklu var haldinn 18. apríl 2013 í Grunnskólanum á Hellu. Á fundinn mættu á  milli 10 og 15 manns.  Fundarstjóri var Guðmundur Jónasson. Miklar umræður voru á fundinum um starfið innan félagsins. Fjárhagsleg staða félagsins er góð. Kristinn Scheving kom nýr inn í stjórnina fyrir Heiðrúnu Ólafsdóttur og er stjórn UMF Heklu skipuð eftirfarandi aðilum:

 

Formaður: Guðmundur Jónasson      

 Varaformaður: Guðríður Tómasdóttir      

Gjaldkeri: Hulda Karlsdóttir                                    

Ritari: Guðbjörg Arnardóttir

Meðstjórnandi: Ásgeir Jónsson                             

Varamaður:   Erna Sigurðardóttir                           

 Varamaður: Kristinn Schevin

 

Helstu atriði úr starfsemi félagsins 2013

Um 30 krakkar á grunnskólaaldri iðka körfubolta yfir veturinn tvisvar sinnum í viku í íþróttamiðstöðinni á Hellu, og er þjálfari liðsins Þorsteinn Darri Sigurgeirsson. Starfið fór í gang í haust með æfingum á vegum meistaraflokks Breiðabliks sem voru að nýta húsið á Hellu til æfinga og þökkuðu fyrir sig það þessum hætti. Tekið var þátt í héraðsmóti HSK í flestum flokkum. Meistaraflokkur karla þátt í annarri deild KKÍ og var gengi þeirra misjafnt.

Leikjanámskeið var haldið í júní í samvinnu við sveitarfélagið. Að venju stóð það yfir í 3 vikur í júní og síðan var bætt við 2 vikum í ágúst. Þátttakendur voru rúmlega  50 talsins þegar mest var í júní, en þátttakan var dræmari í ágúst.  Almenn ánægja var með námskeiðið meðal barna og foreldra. Námskeiðið var styrkt af sveitarfélaginu sem gerði það að verkum að hægt var að lækka þátttökugjöldin verulega. Umsjónarmenn voru Þórunn Inga Guðnadóttir, Rúnar Hjálmarsson og Gabriella Oddsdóttir.

 

Frjálsíþróttamót var haldið í apríl fyrir krakka 10 ára og yngri í íþróttahúsinu á Hellu þar sem krökkum í sýslunni var boðin þátttaka og heppnaðist það vel. Krakkar frá Heklu fóru  á héraðsleika HSK innanhúss 10 ára og yngri á Hvolsvelli í byrjun mars. Nokkrir krakkar tóku þátt í Aldursflokkamóti HSK 11-14 ára í Laugardalshöllinni í janúar þar sem vannst til nokkurra verðlauna. Einnig áttum við þátttakanda í boðhlaupssveit HSK á Íslandsmóti 14 ára og yngri. Haldið var úti frjálsíþróttaæfingum á íþróttavellinum í sumar þar sem mæting var oftast þokkaleg og á köflum góð. Frjálsíþróttaþjálfari er Rúnar Hjálmarsson.  Meistaraflokkslið kvenna í blaki undir merkjum Heklu og Dímon var starfandi á árinu og tóku þær þátt í fjölda móta og gekk bærilega. Einnig voru skipulagðar blakæfingar á fimmtudögum fyrir krakka 11-16 ára, þjálfari bæði hjá konunum og krökkunum er Ingibjörg Heiðardóttir.

Hekla stóð fyrir Héraðsmóti HSK í skák 16 ára og yngri í apríl þar sem vannst til fjölda verðlauna og vann félagið stigabikar og varð héraðsmeistari. Rangæingamót í skák 16 ára og yngri hélt Hekla á Hellu um miðjan nóvember þar sem mættu um 30 þátttakendur frá Heklu, Dímoni og Garpi, þar varð Hekla sigursælust.  Sveit  Heklu varð í 4. sæti á Héraðsmóti HSK skák fullorðinna í nóvember.

 

Mikil vakning hefur orðið á borðtennisiðkun á Hellu og höfum við notið góðvildar frá Dímoni í þeim efnum, þar sem krakkar frá okkur sækja æfingar á Hvolsvöll.Í upphafi árs sóttu krakkar frá okkur nokkrar æfingabúðir á Hvolsvelli á vegum Borðtennissambands Íslands. Fjöldi krakka mættu á Héraðsmót HSK sem haldið var á Hvolsvelli í nóvember þar sem við eignuðumst tvo Héraðsmeistara Þá Heiðar Óla Guðmundsson og Aron Birki Guðmundsson,  urðum í öðru sæti stigakeppninnar.  5 keppendur tóku þátt í Íslandsmóti í apríl og áttum við þar 1 einstækling á verðlaunapalli. Einnig kepptu  krakkar á borðtennismóti sem Dímon og Hekla stóðu fyrir á Hellu í október sem og nokkrum mótum sem haldin voru á Hvolsvelli. Krakkar mættu á Unglingamót HSK í sundi nóvember og Aldursflokkamót HSK í júní og vannst þar til nokkurra verðlauna. Skipulagðar æfingar hafa verið tvisvar í viku sem hafa verið þokkalega sóttar, sundþjálfari er Lára Hrund Bjargardóttir. Handboltaæfingar voru tvisvar í viku í vor og síðan í haust og hefur verið þokkaleg mæting á þær æfingar, þjálfari er Þórunn Ósk Þórarinsdóttir.

 

Umf Hekla kom að skipulagningu á samfellu skólastarfs og íþrótta fyrir  nemendur í  5-10 bekk, á mánudögum og miðvikudögum milli kl. 15 -17. Í samfellunni var félagið með körfubolta, frjálsar íþróttir, sund og hreysti. Þátttakendur eru rúmlega 40 talsins. Taekwondoo  æfingar í samvinnu við Taekwondoo deild Umf Selfoss voru í gangi á árinu. Æft var tvisvar í viku og er hópnum skipt í tvennt; 10 ára og yngri og 11 ára og eldri. Um 35 krakkar og fullorðnir hafa verið að mæta að jafnaði og hefur þetta gengið mjög vel. Fullt af krökkum fóru í beltapróf á árinu. Farið var á nokkur mót innan héraðs sem utan og vannst þar til fullt af verðlaunum. Fimleikaæfingar voru einu sinni í viku fyrir tvo aldurshópa og voru hátt í 50 krakkar sem tóku þátt í þessum æfingum, þjálfarar eru Sigrún Jónsdóttir og Margrét Lúðvígsdóttir.

 

Félagið stóð fyrir opnu húsi í íþróttahúsinu á Hellu á föstudögum frá kl.16-18 fram á vor, þar sem börnum og foreldrum þeirra er boðið að koma og stunda íþróttir saman. Ekki var hægt að koma þessum tímum fyrir í haust vegna tímaleysis í íþróttahúsinu. Félagið stóð fyrir fjölskyldugöngu í haust þar sem gengið var niður með Ytri-Rangá að Ægissíðufossi. Þátttakan var dræm í kulda og leiðinda veðri. Félagið sá um framkvæmd á Kvennahlaupi ÍSÍ á Hellu og var þátttaka góð, tæplega 100 konur. Félagið sá um framkvæmd á friðarhlaupi í júní. Félagið tók þátt í kostnaði við komu fyrirlesarans Loga Geirssonar fyrrum landsliðsmanns og atvinnumanns í handbolta í samstarfi við Foreldrafélag Grunnskólans á Hellu og Umf Framtíðarinnar. Þar sem rætt var um heilbrigt líferni og markmiðssetningar í lífinu.

 

Helstu fjáraflanir félagsins eru lottótekjur, félagsgjöld, dósasafnanir og sala á áburði. Einnig eru leigð út bingóspjöld. Skrifað var undir samstarfssamning við sveitarfélagið á árinu til næstu fimm ára og er það vel, styrkir það starfsemina og sýnir þeim sem standa í starfinu að eftir því starfi er tekið.  Á árinu styrkti félagið meistaraflokkskonur í blaki um 30.000 kr.  Keypt var nýtt trambólín í íþróttahúsið,  keyptir voru krakkablakboltar sem og frjálsíþróttabúningar og gaddaskór fyrir krakkana til að keppa í á hinum ýmsu mótum. Félagið vann að uppsetningu á heimasíðu á árinu og er það verk langt komið, slóðin er www.umfhekla.is

Félagsmenn í Umf Heklu eru um 520 talsins. Félagsgjald er 1500 kr. fyrir 18 ára og eldri.

  3 aðilar mættu á ársþing HSK í Aratungu um miðjan mars. Guðmundur Jónasson, Erna Sigurðardóttir og Brynja Garðarsdóttir.

Landsmót UMFÍ fór fram á Selfossi í sumar. Var þar nokkuð um starfsmenn frá Umf Heklu sem og keppendur, sem unnu til tveggja verðlauna.