Fimleikar á Hellu


Fimleikaæfingar verða á vegum Ungmennafélagsins Heklu í íþróttahúsinu á Hellu í vetur, nánar auglýst síðar.

 

 

Öldungamót í blaki 2014


 

Helgina 1-4 maí tók kvennalið Dímon/Hekla þátt í öldungamóti í blaki 30 ára og eldri sem fór fram á Akureyri. A liðið tók þátt í 5. deild og sigraði hana og mun spila í 4. deild á næsta móti. B liðið tók þátt í 10. deild þar sem ekki gekk eins vel, urðu þær í neðsta sæti og munu spila í 11. deild næsta vetur. Liðin hafa æft tvisvar í viku í vetur, bæði á Hellu og á Hvolsvelli. Einnig hafa þær tekið þátt í fjölda móta, Íslandsmóti og hinum ýmsu hraðmótum.  Þjálfari liðana er Ingibjörg Heiðarsdóttir.

Liðin með sigurlaunin í 4. deild öldungamótsins í blaki 2014

 

 

Tekwondo beltapróf á Selfossi

_________________________________________________________________________________________

Margir iðkendur Taekwondo á Hellu tóku beltapróf sunnudaginn 11. maí og gekk vel.  Luku keppendur gráðum frá 10-5 geup eða gul rönd á hvítt belti, gult, appelsínugult, grænt og blátt belti og rauð rönd á blátt belti.  Hér má sjá myndir frá deginum, ekki náðist mynd af þeim sem fyrst luku prófi nema á Facbook síðu Taekwondo deildarinnar á Selfossi en þar má sjá margar skemmtilegar myndir.  Til hamingju Umf Hekla með frábærar iðkendur við þökkum þjálfurum okkar frá Taekwondodeild Umf Selfoss kærlega fyrir okkur og óskum þeim einnig til hamingju með árangur dagsins.  Skemmtilegt að segja frá því að iðkendur frá Hellu vöktu sértaka athygli fyrir armbeyjur og var á prófinu talað um hellu-armbeygjur.

Skákfréttir


Helgina 25-27. apríl keppti Katla Torfadóttir á Norðurlandamóti stúlkna í skák sem haldið var að Bifröst í Borgarfirði. Katla hlaut 2. vinninga af 5. mögulegum og varð í 8. sæti. Flottur árangur hjá Kötlu.

Föstudaginn 25. apríl varð Heiðar Óli Guðmundsson sigurvegari á kjördæmismóti í skólaskák sem haldið var í Fischersetrinu á Selfossi. Þar varð hann hlutskarpastur eftir að hafa háð einvígisskák við Almar Mána Þorsteinsson eftir að þeir urðu efstir og jafnir í mótinu. Veitti þetta Heiðari Óla rétt til þess að keppa til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í skólaskák á móti sem haldið var í Reykjavík dagana 1. - 4. maí, þar sem hann varð í 10-11 sæti með 2. vinninga.

Hér sést Heiðar Óli að tafli viðíslandsmeistarann í skólaskák 2014 Veigar Vatnar Stefánsson.

 

Fimleikar


Æfingar sem eiga að vera 2. maí verða færðar til 1. maí og verða þær á Selfossi, nánar tiltekið í fimleikasalnum við Sunnulækjarskóla. Yngri hópur byrjar kl:11.30 og eldri hópur byrjar kl:13.00.       Nánari upplýsingar gefur Hulda í síma:695-1708

 

 

 

Aðalfundur haldinn 2. apríl 2014 í Grunnskólanum á Hellu


 

1.  Formaður, Guðmundur Jónasson, setti fundinn og fékk samþykki fundarins til að stýra honum.  Mætt úr stjórn eru:  Guðmundur Jónasson, Guðbjörg Arnardóttir, Hulda Karlsdóttir, Guðríður Ásta Tómasdóttir, Kristinn Scheving,  Erna Sigurðardóttir.  Annað fundarfólk: 4

2.  Fundarritari las fundargerð síðasta aðalfundar.  Hún samþykkt. 

3.  Formaður las skýrslu stjórnar.  Um 30 krakkar iðka körfubolta yfir veturinn, þjálfari Þorsteinn Darri Sigurgeirsson.  Meistaraflokkur karla tók þátt í annarri deild KKÍ.  Leikjanámskeið var haldið í júní í samvinnu við sveitarfélagið, 3 vikur í júní og 2 í ágúst, 50 þátttakendur þegar mest var, umsjónarmenn Þórunn Inga Guðnadóttir, Rúnar Hjálmarsson og Gabriella Oddsdóttir.  Iðkendur á vegum félagsins tóku þátt í nokkrum frjálsíþróttamótum.  Haldið var úti frjálsíþróttaæfingum yfir sumartíma, þjálfari er Rúnar Hjálmarsson.  Meistaraflokkslið kvenna í blaki keppti undir merkjum UMF Heklu og Dímon einnig voru blakæfingar fyrir 11-16 ára, þjálfari er Ingibjörg Heiðarsdóttir.  UMF Hekla hefur átt keppendur í skák og unnið til verðlauna.  Vakning hefur orðið á borðtennisiðkun í samstarfi við Dímon.  Hafa iðkendur okkar unnið til verðlauna í greininni.  Iðkendur á vegum UMF Heklu tóku þátt í Unglingamóti HSK í sundi.  Æfingar hafa verið í handbolta þjálfari er Þórunn Ósk Þórarinsdóttir.  UMF Hekla kom að skipulagningu á samfellu skólastarfs og íþrótta í boði er körfubolti, frjálsar, sund og hreysti.  Taekwondo æfingar hafa verið í samvinnu við Umf. Selfoss sem hafa gengið vel, þjálfari er Daníel Jens Pétusson.  Fimleikaæfingar, þjálfarar eru Sigrún Jónsdóttir, Margrét Lúðvíksdóttir og Rakel Natalie sem einnig var með íþróttaskóla fyrir börn á leikskólaaldri.  Opið hús var á föstudögum fyrir fjölskyldur fram að vori 2013 og ekki byrjað með það aftur að hausti.  Fjölskylduganga var að hausti, dræm þátttaka.  Félagið sá um Kvennahlaup ÍSÍ, sömuleiðis sá félagið um framkvæmd á firðarhlaupi.  Félagið tók þátt í kostnaði vegna fyrirlestur Loga Geirssonar á vegum Foreldrafélags Grunnskólans á Hellu og Umf. Framtíðarinnar.  Helstu fjáraflanir eru:  lottótekjur, félagsgjöld, dósasöfnun og sala á áburði, leiga á bingóspjöldum.  Skrifað var undir samstarfssamning við Sveitafélagið á árinu til næstu fimm ára.  Keypt var nýtt trampolín, frjálsíþrótta- og leikjaáhöld, búningar og gaddaskór.  Unnið var að uppsetningu á heimsíðu.  Félagsmenn eru 520 talsins.   

Umræður um skýrslu stjórnar:  Athugasemd vegna þess að opna húsið datt niður á föstudögum en kom það til vegna fimleikaæfinga.   

4.  Ársreikningar félagsins lagðir fram af Huldu Karlsdóttur.  Rekstrarreikningur, tekjur 4.324.879.-  Rekstrargjöld 4.779.738.- , vaxtatekjur eru 214.543.-, tap er 240.325.-  Efnahagsreikningur, eignir samtals 5.670.936.-  Tekið fram í skýringum að styrkur frá Rangárþingi ytra er 1.813.418.-   Farið vel yfir skýringar og kostnaðarliði og rætt um hvort of mikið sé greitt niður af æfingagjöldum.  Fundarfólk sammála um að á meðan félagið stendur vel sé engin ástæða til annars en að styðja við iðkendur með niðurgreiðslu.   

5.  Kosningar.  Guðmundur Jónasson formaður gefur áfram kost á sér, fagnað með lófataki.  Núverandi stjórn, varamenn og skoðanamenna gefa áfram kost á sér, þeim fagnað með lófataki.  

6.  Önnur mál.  Formaður greindi frá nýliðnu ársþingi HSK og þeim verðlaunum sem félagið tók við, sjá fundargerð síðasta stjórnarfundar.  Klappað sérstaklega fyrir formanni fyrir vel unnin og góð störf í þágu félagsins undanfarin ár.  Spurst hefur verið um hvort hægt væri að fara í samstarf við félagið um kraftlyftingar, er stjórnin jákvæð og mun kanna málið.

Rætt um hvort hægt væri að kaupa borðtennisborð, vilji er til þess en húsnæðisskortur hamlar. 

Búið er að ráða þrjá þjálfara fyrir leikjanámskeið í sumar, líklega verður ekki námskeið í ágúst. Stefnt verður að frjálsíþróttaæfingum fyrri hluta sumars. Í skoðun er leiklistarnámskeið fyrir sumarið. 

Fundi slitið kl. 22:00.