Sýslumót í skák 2014


Sýslumót í skák fór fram í Grunnskólanum á Hellu mánudaginn 14.apríl síðastliðinn og mættu 8 keppendur til keppni. 1 keppandi mætti til keppni í 8-10 bekk, Axel Edelon frá Hvolsskóla og verður hann þátttakandi Rangárvallasýslu á kjördæmismóti. 7 keppendur mættu til leiks í 5-7 bekk og urðu úrslitin eftirfarandi:

  1. Almar Máni Þorsteinsson Grunnskólinn Hellu  6,5 vinningar
  2. Heiðar Óli Guðmundsson  Grunnskólinn Hellu  6 vinningar
  3. Aron Birkir Guðmundsson  Grunnskólinn Hellu  4,5 vinningar
  4. Katla Torfadóttir  Grunnskólinn Hellu  4,5 vinningar
  5. Guðný Karen Óliversdóttir Laugalandsskóli  2,5 vinningar
  6. Sindri Sigurjónsson  Hvolsskóli  2,5 vinningar
  7. Aron Sigurjónsson  Hvolsskóli  1,5 vinningar

Almar Máni og Heiðar Óli munu verða fulltrúar Rangárvallasýslu á kjördæmismóti sem haldið verður í Fischersetrinu á Selfossi 25. apríl Kl:14.00.

 

Katla Torfadóttir í stúlknalandslið í skák 13 ára og yngri


Katla Torfadóttir frá Hellu  tryggði sér sl. helgi  rétt til að keppa fyrir hönd Íslands á Norðurlandamóti stúlkna sem haldið verður í lok apríl að Bifröst í Borgafirði.  Katla mun keppa í flokki stúlkna sem eru fæddar árið 2001 og síðar þar sem Ísland mun eiga þrjá fulltrúa. Nancy Davíðsdóttir var búin að tryggja sér sæti í liði Íslands og var keppt um hin sætin tvö í sérstakri undankeppni þar sem Katla varð í 1-2. sæti með 6 vinninga af 7 mögulegum. Árangur Kötlu kemur þeim sem í kringum hana eru ekki á óvart þar sem hún hefur verið til fyrirmyndar varðandi áhuga og ástundun á skákæfingum í Grunnskólanum Hellu síðustu ár.
Skáklífið hefur verið líflegt í Grunnskólanum Hellu og skólinn tekið þátt í mögum mótum í vetur.  Skólinn sendi þrjá keppendur á  Íslandsmót barna 10 ára og yngri, stúlknasveit skólans tók þátt í Sveitakeppni Grunnskóla í stúlknaflokki.  Síðan sendi skólinn tvær sveitir í Sveitakeppni Grunnskóla og var önnur sveitin skipuð nemendum sem eru 9 ára og yngri.
Af sjálfsögðu mætti krakkarnir svo fylgdu liði undir merkjum Umf Heklu á héraðsmót HSK 16 ára og yngri sem haldið var á Hellu í febrúar, þar sem þau urðu héraðsmeistarar. Haldið var síðan hressilega upp á Skákdag Íslands þann 26. Janúar síðastliðinn með fjölmennu fjöltefli í skólanum, en Skákdagur Íslands er haldinn árlega á afmælisdegi Friðriks Ólafssonar, fyrsta stórmeistara Íslendinga og fyrrverandi forseta alþjóðaskáksambandsins FIDE.
Nemendur hafa staðið sig með stakri prýði og varð t.d. Aron Birkir Guðmundsson í 8-18. sæti með 5 vinninga af 7 mögulegum á Íslandsmóti barna og stúlknasveitin varð í 6. sæti af 18 í Sveitakeppni Grunnskóla í stúlknaflokki.
Björgvin S. Guðmundsson kennari og skákþjálfari skólans  segir að velvild skólastjórnenda varðandi skákiðkun í skólanum hafi haft mikið að segja sem og gott samstarf við Guðmund Jónasson hjá Umf Heklu.  Einnig vildi Björgvin nefna hlut Samverks, en glerverksmiðjan gaf skólanum rausnarlega  gjöf fyrir nokkrum árum, bæði töfl og klukkur sem mikið eru notuð við kennslu og mótahald. Hann vildi líka þakka fyrir þátt foreldra í þessum árangri þar sem þau eru dugleg að standa við bakið á börnum sínum með því að tefla við þau heima og fylgja þeim á mót.Katla Torfadóttir einbeitt við taflborðið

 

 

Íslandsmót Barnaskólasveita í skák


 Helgina 22-23 mars 2014 fór fram Íslandsmót Barnaskólasveita í skák í Rimaskóla í Reykjavík. Í mótinu tóku þátt 49 sveitir víðsvegar af að landinu, en aðallega þó af höfuðborgarsvæðinu. Grunnskólinn á Hellu mætti til leiks með tvær sveitir. A sveit sem skipuð var krökkum úr 5 og 6 bekk, sveitin varð í 18 sæti með 19 vinninga. Eftirfarandi krakkar skipuðu A sveitina: Almar Máni Þorsteinsson, Heiðar Óli Guðmundsson, Aron Birkir Guðmundsson, Katla Torfadóttir og Sindri Seim Sigurðsson. B sveitin var skipuð krökkum úr 3. Bekk og varð í 25 sæti með 18 vinninga. Sveitina skipuðu eftirfarandi krakkar: Gunnar Guðmundsson,  Anton Fannar Kristinsson, Martin Patryk Srichakam, Ásbjörn Óli Gústavsson og Svava Þorsteinsdóttir. Glæsilegur árangur hjá krökkunum okkar sem æfa í skólanum undir handleiðslu Björgvins Guðmundssonar sem var liðsstjóri á mótinu.

 

 

Umf Hekla fær Ísladsmeistara í borðtennis


 Helgina 22-23. mars fór fram íslandsmeistaramót í borðtennis þar sem Umf Hekla eignaðist sinn fyrsta íslandsmeistara. Þorgils Gunnarsson varð íslandsmeistari í flokki 11 ára og yngri hnokka, einnig varð Aron Birkir Guðmundsson í 3-4 sæti í sama flokki.

 

                  Félagarnir með verðlaunin sín

 

 

Kvennalið Dímon/Hekla héraðsmeistarar HSK í blaki 2014


Fimmtudagskvöldið 13. mars síðastliðinn urðu blakkonur í blakdeild Dímon /Hekla HSK meistarar 2014 og fór loka keppnin fram í íþróttahúsinu á Hellu. Keppt er í tveimur deildum og mættu 11. Lið til keppni.  Vann A liðið 1. deildina og B liðið vann 2. deildina. Þannig að okkar konur komu sáu og sigruðu þetta allt saman, flott hjá þeim. Mikil aukning hefur orðið í vetur í blakiðkun hjá konunum og eru þær 17 sem mynda hópinn sem er við æfingar. Þessi samvinna Íþróttafélagsins Dímon og Umf Heklu hefur verið í gangi í nokkur ár og hefur það gengið afskaplega vel.                                                                     Þjálfari er Ingibjörg Heiðarsdóttir.

 

 

 

Umf Hekla fær Unglingabikar HSK 2014


 Á héraðsþingi HSK sem haldið var laugardaginn 1. Mars 2014 var Umf Heklu afhentur Unglingabikar HSK. Bikarinn er veittur því félagi sem hefur verið með hvað mestan stíganda í starfi sínu síðustu ár og starfið blómstrar. Eftir farandi umsögn kom frá HSK:

 Starfið hjá Umf Heklu hefur verið í miklum vexti síðustu ár. Fyrir fimm árum síðan var bara í gangi körfubolti á vegum félagsins þar sem íþróttakennarar við Grunnskólann á Hellu sáu um þjálfunina. Vöxturinn í starfi félagsins hefur verið jafn og stígandi síðan. Félagið tók að sér í samvinnu sveitarfélagið að sjá um samfellu í íþróttastarfi 3 virka daga vikunnar, fjóra tíma í senn. Samfella er fjölbreytt íþróttadagskrá sem hefst eftir að skóla líkur hjá krökkunum og stendur yfir í tvo tíma fyrir 1-4 bekk og í tvo tíma fyrir 5-10 bekk. Síðan hafa orðið breytingar á þessu kerfi og sér félagið í dag um dagskránna fyrir 5-10 bekk tvisvar í viku. Fljótlega hófust taekwondoæfingar í samvinnu við taekwondo deild Umf Selfoss. Farin hefur verið sú leið að leita samvinnu við Dímon á Hvolsvelli og deildir innan Umf Selfoss til þess að geta aukið flóruna á íþróttum sem stundaðar eru.  Í dag eru stundaðar eftirfarandi íþróttagreinar á vegum félagsins einu sinni í viku: Fimleikar, blak, frjálsar íþróttir og hreysti (skólahreysti). Íþróttagreinar þar sem eru tvær æfingar á viku eru: körfubolti, borðtennis, sund, handbolti og taekwondo. Einnig er félagið í mikilli samvinnu við Grunnskólann á Hellu um mótahald í skák, en skáklífið í skólanum er mjög öflugt.  Næg þátttaka hefur verið á öllum þessum æfingum til þess að þeim er haldið gangandi. Það hefur orðið alger bylting í því á síðustu árum hversu miklu hærri prósenta barna á Hellu stundar íþróttir heldur en var fyrir nokkrum árum síðan.

 Guðmundur Jónasson formaður Umf Heklu með bikarinn ásamt Guðríði Aadnegard formanni HSK og öðrum verðlaunahöfum á þinginu